Við erum Davíð og Eva Ósk og bjóðum ykkur innilega velkomin til okkar á Tenerife.

Við höfum komið til Tenerife reglulega frá árinu 2016. Við kolféllum fyrir eyjunni strax í fyrstu ferð og okkur telst til að við höfum komið hingað í næstum 30 skipti!

Í gegnum tíðina höfum við ýmist komið í fjölskylduferðir til skemmri eða lengri tíma, en Davíð hefur líka komið hingað sérstaklega í hjólaferðir. Við uppgötvuðum fljótt að Tenerife hefur upp á svo miklu meira að bjóða en bara Laugaveginn.

Árið 2021 tókum við ákvörðun um að flytja hingað í blíðuna og létum verða af því í ágúst 2022. Í dag búum við í bænum Callao Salvaje þar sem stelpurnar okkar þrjár, Alís, Elísabet og Agnes, ganga í skóla og við foreldrarnir stundum fjarvinnu.

Velkomin til okkar!

Eitt af því sem við áttuðum okkur fljótt á þegar við fórum að koma hingað var hversu erfitt og dýrt það er að fá hótelgistingu fyrir 5 manna fjölskyldu. Við fórum því að bóka íbúðir þegar við komum en aðbúnaðurinn var þá almennt ekki spennandi. T.d. var lítið af eldhúsáhöldum, ekkert eða lélegt grill (og við erum alltaf grillandi!), rúmin léleg, útlitið almennt ekki smekklegt, og ekkert hægt að horfa á í sjónvarpinu - sem skiptir máli þegar maður er með lítil börn og því ekki á þvælingi öll kvöld.

Við sáum þarna tækifæri og árið 2020 keyptum við íbúðina í Calle Beirut, tókum hana í gegn og innréttuðum. Við höfum nú fengið til okkar fjölda gesta og er það einróma álit þeirra að verðið, aðbúnaðurinn og staðsetningin sé eins og best verður á kosið.

Við erum að búa okkur undir að geta gert fleirum kleift að njóta Tenerife í frábærri aðstöðu og erum að byggja 500fm hús með gistingu fyrir 20 manns, einkasundlaug og fleiru. Við stefnum að því að geta tekið á móti fyrstu gestunum jólin 2024. Smelltu hér til að skoða hvernig það mun líta út.

Við bjóðum þig og þitt fólk innilega velkomið til okkar. Hafðu endilega samband til að fá upplýsingar og bóka.

Við hlökkum til að sjá þig,

Eva Ósk, Davíð, Alís, Elísabet og Agnes

____

Eva:
N: eva@30.is
S: +354 867 3947